Íslenska

Allt frá stofnun fyrirtækisins Pabbakné hafa forráðamenn þess einbeitt sér að hinu smáa í grasrót mannlegs samfélags.  Með óeigingjörnu starfi hafa þeir hlúð að minni máttar og nú finnst varla sú heybrók sem ekki hefur fundið styrk frá hinu sterka kné. Þegar sá merki áfangi náðist að ríkisstjórnin setti lög um stórkostlegan skattafrádrátt til fyrirtækja í menningar- og líknaratlotum var Pabbakné um leið með umtalsvSamningur PKert forskot á önnur fyrirtæki en samkvæmt nýlegri úttekt Viðskiptablaðsins voru útgjöld þess langt umfram tekjur. Einn liður í vexti og viðgangi fyrirtækisins er að færa út kvíarnar. Því var afráðið eftir stutta yfirlegu, að ganga til samstarfs við myndlistarmanninn Jóhann Ludwig Torfason um framleiðslu verka hans. Er samningurinn afturvirkur til ársins 2000 og felur í sér framleiðslu, umsýslu og afskrift verka, gerð frá því ári og til ársins 2010. Jóhann hefur sýnt það og sannað að verk hans tala máli fyrirtækisins, ekki síst í ljósi þess að heimurinn er eins og hann er. Því ríkir nú mikil gleði í herbúðum Pabbakné ehf.   Auðunn Laupur Hólm Forstjóri

***

Jóhann Ludwig Torfason stundar eignarnám í verkum sínum en leggur jafnframt áherslu á að skapa ríkulega frásögn sem oft er skreytt beinum samfélagslegum og pólítískum athugasemdum.  Strax á fyrstu sýningu sinni í galleríinu Hamrinum í Hafnafirði í maí 1995 kynnti hann frásagnarmyndlist sem átti rætur að rekja til popplistar eða öllu heldur evrópska poppsins líkt og frásagnarfígúrasjón í Frakklandi. Þetta var myndbrotafrásögn þar sem listamaðurinn tileinkaði sér þekktar myndir eða vörumerki sem hann raðaði á myndflötinn og málaði fínum og nákvæmum dráttum. Hann leitaði víða fanga í verkum sínum, bæði í alþjoðlegu listasögunni og íslenskum veruleika. Málverk hans eru gagnrýnin háðsádeila með beinskeyttum félagslegum og pólítískum tilvísunum. Í þeim felst mikill húmor og kaldhæðni sem minnir á stílbrögð og viðhorf teiknimyndasöguhöfunda, en Jóhann var einn af aðstandendum tímaritsins Gisp, sem nokkrir fleiri myndlistarmenn stóðu að og var [er] helgað skop- og teiknimyndasögum. Myndefnið í verkum Jóhanns er brúður eða öllu heldur brúðu-myndlíkingar, sem hann notar til að fjalla á Þórarinngagnrýninn hátt og með gálgahúmor um ýmsar krefjandi tilvistarspurningar sem tengjast hervæðingu, dauðarefsingum, þjáningu, ofbeldi og jafnvel öldrun.  Verk hans eru spéspegilsmyndir neyslusamfélagsins sem hann miðlar með myndum og texta eða jafnvel myndagátum.  Hann leyfir sér að storka framleiðsluháttum listaverka og hinu hefðbundna upphafna “einstæða gildi” listaverksins með því að tölvuprenta stafræn málverk ítakmörkuðu upplagi. Listamaðurinn hefur enn fremur í sinni þjónustu sérstakt “sölufyrirtæki” til að markaðssetja list sína. Ekkert er heilagt í ímyndarumfjöllun Jóhanns eins og sjá má í myndlýsingu hans um frumkvöðla íslenskrar myndlistar sem hann íklæðir ímynd ofurhetja sem hann sækir í bandarískar teiknimyndasögur.

Gunnar B. Kvaran, Íslensk listasaga. Forlagið 2011

***

Oggulítið samtal ritstjóra Ókeipiss (H.D.) við JLT

ÓkeipissHvaðan kemur allur þessi kúkur? Blundaði hann lengi í þér?

Það er saga að segja frá því að kúkurinn þrengdi sér út í veröldina, nánast alskapaður eftir umtalsvert harðlífi. Uppruna hans má rekja til höfuðstöðvanna.

Á maður von á meiri kúk? Öðrum kúkasýningum eða jafnvel kúk í bók?

Stórir hraukar hafa nú þegar safnast upp og yfirvofandi er skítkast sem engin hægðarleikur verður að stöðva. Ég mun að öllum líkindum losa duglega í bókverk fljótlega og vonast til að fylgja því eftir með einhverju sýningardriti.

Hvað er það við kúkinn sem heillar?

Það er augljóst að kúkurinn er eins og leir í höndum manns.

Til eru tvær manngerðir. Sá sem sturtar niður um leið og hann stendur upp. Og sá sem fer á hækjur sér og skoðar kúkinn áður en hann sturtar. Hvor ert þú?

Báðar þessar manngerðir fremja þann glæp að sturta niður. Það er mikilvægt sáluhjálparatriði á þessum erfiðu tímum að við höldum þeimskít sem við sköpum sem næst okkur.  Í honum speglast langanir okkar og þarfir sem gott er að rýna í og greina niður í minnsta sparð áður en gengið er áfram meltingarveginn til glötunar. Þó getur verið ágætt, ef byrgðir eru miklar, að dreifa einhverjum hluta hans meðal samborgara sem geta þá gert samanburð við sína eigin afurð og skapast þá jarðvegur fyrir samkeppni, metnað og mögulega nýsköpun.

Ókeipiss 2012

***

Nokkur orð um JLT 50 ára og afmælissýningu í sal Íslenskrar grafíkur í apríl 2015

Einn þarfasti þjónn okkar, Jóhann Ludwig Torfason, fyllir nú fimm tugi og er fátt um það að segja. Fyrirtækið Pabbakné hefur af því tilefni framleitt sérstaka afmælisútgáfu á nokkrum þeim verkum sem Jóhann hefur komið nálægt, prentuð á gæðapappír og merkt fyrirtækinu. Verkin eiga það sammerkt með annari framleiðslu okkar að vera sjónræn útfærsla rannsóknarteymis Pabbaknés á atferli mannsins, þar sem megináherslan liggur í uppgröftri róta sem smogið hafa um tilfinningagarð mannkyns og athugun á heilnæmi þess eiturs sem við að öllu jöfnu notum á þennan sama garð í góðri trú um betri uppskeru. Niðurstaða þessarar rannsóknar er ekki gefin upp að svo stöddu, enda skammt á veg komin og hlægilegt væri að nota svo fáfengilegan viðburð sem þennan til að upplýsa allan almenning um þeirra innstu þrá og vonir og glórulausa aðdáun og ást á hinum hverfulu sköpunarverkum mannsins. En nú er ég ef til vill að tala af mér. Hugum frekar að þeim verkum sem hér ber að líta; Í réttri tímaröð, sólarganginn frá vinstri, hefst atburðarrás með dólgslegri framsetningu á sjálfu hjarta hins rétta og slétta launamanns, ímynd hagsældar og búbótar sem sæmilega myndlæst fólk getur lesið að feli í sér mikið fall. Verkið Svín er málað árið 1992 og eru til sannar sögur af konum sem réðust heiftarlega að listamanninum fyrir ósvífnina. Sögunni víkur að leikföngum sem urðu til þegar sjálf veröldin heimtaði viðbrögð frá myndskáldinu við barnaneyslunni og er þá ekki átt við neyslu á börnum, nema þú lesir það úr verkunum. Komið er við í þrá listamannsins eftir viðlíka viðurkenningu og Snorri okkar Sturluson, sá heimsmeistari í vaxtarækt. Sömuleiðis birtist okkur daður við myndasögur, en Jóhann hefur í óþökk fyrirtækisins, sinnt þeirri listgrein með báðar hendur fyrir aftan bak. Lengra inn í salnum poppa upp myndir frá aldamótum sem hoggnar eru í pixla, en afmælisbarnið þóttist himinn hafa höndum tekið með sinn fyrsta makka. Línur voru þær sömu, leikföng sem auðlesið er að voru ekki teknar fyrir á samráðsfundi hönnuða hjá Leikfangalandi. Keyrir um þverbak með Manna, þann aumkunnarverða vesæla dólg. Að gera hann svo glaðhlakkanlega bláeygan er vitaskuld brottrekstrarsök og átti ég marga næturfundi ásamt meðstjórnendum vegna málsins. Áfram er haldið og staldrað stutt hjá Frumherjunum sem viti borið fólk þekkir út og inn. Fyrir neðan þá hangir dularfyllra fólk sem sprettur frá undarlegri aðdáun ÚÞSKE28Jóhanns á Fransiskó Goya og kenjum hans. Ef áfram er haldið verður þrautin þyngri með torræðum gátum sem skátar munu gráta undan ef þeir færu á myndlistarsýningar. Tinni, sá eðaldrengur, á sinn stað í þráhyggju listamannsins og er hér einkar illa farið með hans trausta vin. Enda tekur nú gamanið að kárna með litlausum pælingum um hversvegna munnmálarar mála alltaf í sykruðu raunsæi, hversvegna listamanninum mistókst að verða expressjónisti, pælingum um söknuð og þunglyndi, sem verður að segjast eins og er að eiga ekkert sérstaklega upp á pallborð Pabbaknés. Tekur nú steininn úr með leðjulíki sem líkist einhverju sem ég kýs að nefna ekki hér, og þegar sjálfum forsetanum og landinu bláa er blandað við óskapnaðinn er fokið í flest skjól. Og hver er þessi tvöfalda kona sem talar svo óskýrt? Hún er kunnugleg og það veldur mér áhyggjum. Heldur róast yfir framleiðslunni með frekari textagerð og listamaðurinn hittir í mark með vísan í foreldra Walt Disneys, sem við eigum svo margt að þakka. Við lok þessarar yfirreiðar blasa við verk sem eru æði kunnugleg enda tekin traustataki upp úr Gagni og gamni og soðin upp á nýtt, með mér ókunnu kryddi. Mögulega á gráu svæði höfundarlaga ef þú spyrð mig og er ég þegar farinn að reyta hár mitt og skegg og skipuleggja björgunaraðgerðir. Mér hlýtur að vera vorkunn að spyrja eins og afmælisbarnið: Hvernig komst ég þaðan, og hingað?

A.L.H.

***

Þrautir Jóhanns Ludwig Torfasonar

Aðfararorð A.L.H. vegna Þrautasýningar Pabbakné í Gallerí Listamenn 2013  http://listamenn.is/

Allt frá stofnun fyrirtækisins Pabba knés ehf. hafa forráðamenn þess einbeitt sér að hinu smáa í grasrót mannlegs samfélags. Með óeigingjörnu starfi hafa þeir hlúð að minni máttar og nú finnst varla sú heybrók sem ekki hefur fundið styrk frá hinu sterka kné. Þrautir mannskepnunnar eru margvíslegar og ekki laust við að ein slík finnist í öðru hverju spori sem við tvístígum jörðina. Hjá einum eru augun í kross á meðan annar finnur ekki sokkana sína. Menn og konur gráta með reglubundnum hætti. Þó eru þær manneskjur til, sem telja lífsgöngu okkar eina samfellda sæluför, og fást við að egna vitund okkar með heimagerðum þrautum og leikjum, vafalítið í þeim tilgangi einum að efla þrótt og vitsmuni, líkt og þess sé þörf í táradal valkvíða, fákunnáttu og stefnuleysis. Það er vitaskuld líkt því að bregða fæti fyrir fjöruga hind í leit að æti, að benda henni inn í völundahús húsdýragarðs þar sem hún megi rata á rétt fóður í stað þess að hleypa henni rakleitt á lendurnar. Það er ljóst á máli mínu, að þrautir þær sem menn gamna sér við í einhverju glópaskýi ímyndaðrar þekkingar eru ekki að mínu skapi og eru líkt og aukalykkja á hið alkunna 60 metra hindrunarhlaup sem flestir líkja lífi okkar við.Pissið

En Pabba kné er reist á lýðræðislegum grunni hvar allir starfsmenn hafa sama rétt til mismunandi skoðana. Því laut ég í gras, verandi þó forstjóri fyrirtækisins, er starfsmenn og stjórn tóku heilshugar undir þá furðuflugu að framleiða nokkrar þrautir úr smiðju eins starfsmannsins. Langt þrátefli fór um aðalstöðvarnar þar sem skoðanir skiptust frá kaffistofu hreinsitækna að mínu eigin háborði. Sannkölluð þrautarganga. Við nánari skoðun kom á daginn að þrautirnar reyndust mér léttur leikur og því takmörkuð tímasóun. Sem er vel. Skemmtunin var einnig með ágætum, líkt og að finna móður barnanna í fagurri kös ákafra manna eða rekja hlandstrauminn frá réttum karli. Þá hló ég.

Jóhann Ludwig Torfason hefur sýnt það og sannað að verk hans tala máli fyrirtækisins, ekki síst í ljósi þess að heimurinn er eins og hann er og mennirnir eins og þeir eru. Ég leyfi mér að vitna í listfræðinginn Eirík Þorláksson sem segir á einum stað um verk Jóhanns að “hann bregður þannig upp myndum, sem vissulega höggva nærri kviku sjálfsvitundar okkar varðandi þau viðkvæmu málefni sem hann tekur fyrir.” Þó ég skilji ekki alveg hvað það kemur beint þessum leikjum við þá er meiningin vafalaust ágæt.

Nú er ný ríkistjórn að hleypa heimadraganum. Hennar þrautir eru miklar. Ég leyfi mér að óska þess að henni auðnist að finna týndu börnin og tvær píkur eins.

Auðunn Laupur Hólm Forstjóri

***

Guðni Tómasson fjallaði um Sic, sýningu þeirra Ragnhildar Jóhanns og Jóhanns Ludwigs Torfasonar í listrýminu Kunstschlager. http://kunstschlager.com/SIDA/html/pastexhibitiontabs/past23.html

sic póstkortLatneska orðið sic er löngu orðið sígilt þegar kemur að textum og vinnu með texta en notkun þess í texta og þá yfirleitt innan sviga er stytting ásic erat scriptum, eða „svo eins og það er ritað“. Sic er þannig notað ýmist inn í eða á eftir setningum þegar vitnað er í texta til að gefa til kynna að svo hafi verið ritað.Texti inniheldur þá óhefðbundna ritun eða villu með einhverjum hætti. Stundum er í íslenskum texta einnig notað orðið svo í sviga þó enn sjáist frekar latínan.

Sic er nú heiti á myndlistarsýningu sem nú má finna í listrýminu Kunstschlager í Reykjavík, á horni Rauðarárstígs og Skúlagötu. Kunstschlager er áhugaverður viðkomustaður í myndlistarsenu Reykjavíkur þar sem sýningahald einstakra listamanna og listsala á verkum nokkurs hóps listamanna fer fram.

Nú eru það listamennirnir Ragnhildur Jóhanns og Jóhann Ludwig Torfason sem sýna verk sín nú í framrými Kunstschlager, en þau eru félagar í lífinu og listinni. Verk þeirra fylla öll flokk myndljóða en sá listmiðill tekur yfir vítt svið tjáningar eins og Jón Proppé rekur í ágætum texta sem sýningunni fylgir í litlum en smekklegum bæklingi sem liggur frammi á sýningunni. Í myndljóðum, segir Jón, er „framsetning texta, ljóða eða setninga (brota) myndræn eða formræn og byggir fremur á myndlestri en eiginlegum lestri á rituðu tungumáli.“

Texti og myndræn framsetning hans er semsagt grunnstef í sýningunni. Ragnhildur hefur á undanförnum árum klippt út setningar í bókum af ýmsu tagi og flett út þannig að bækurnar umbreytast í myndljóð, setningar fundnar inni í bókinni og upphafnar með því að þeim er flett út og þær settar fram sem línur í myndljóðum. Kápan í þessum gripum verður dularfyllri fyrir vikið en áhorfandinn fær jú bara að sjá setningu og setningu á stangli útúr umbreyttri bókinni. Þessi verk er oft heillandi að lesa, hluti fyrir heild sem leynist inn í bókinni. Einnig sýnir Ragnhildur nú skúlptúra, bæði frístandani og lágmyndir, þar sem harla gagnslitlar bækur, flettar kápu og yfirborði, raðast inn í skápa. Vísanir í altaristöflur eru ekki svo langt undan í sumum verkanna.

Jóhann Ludwig Torfason hefur oftar en ekki sótt í ýmsar áttir í popp- og neyslumenningunni til að leita fanga í myndverk sín. Hann hefur unnið með efni úr heimi leikfanga og teiknimyndasagna, og málað oft tæknilega listileg málverk, þó að á þessari sýningu eigi myndljóð hans frekar ýmislegt sameiginlegt með smíðisgripum, skúlptúrum eða jafnvel lágmyndum.

Það aðgreinir oft verk þeirra Ragnhildar og Jóhanns á þessari sýningu að hún reiðir sig frekar á hinar fundnu línur bókanna sem hún umbreytir með sínum útflettingum og límingum, á meðan hann hefur meiri stjórn á textanum (þó oft sé hann e.t.v. fundinn) og reiðir sig á margræðni hans. Hann skrifar textann í meira mæli en hún og upp koma áleitnar hugsanir um hlutverk höfundarins, myndhöfundarins, ljóðskáldsins, myndljóðskáldsins og svo mætti lengi telja – og vitanlega skörunina þarna á milli.

Um myndljóðið segir Jón Proppé í textanum sem fylgir sýningunni að það sé „sníkjugróður á bókmenntir. Nabbi sem stendur með skringilegum hætti út úr hinu breiða bókmenntabaki og jafnvel þegar vel lukkast til, stolt bóla á beinu nefi skáldskapar“ – og þessi ágæta lýsing á ekki síst við um verk Jóhanns á þessari sýningu.

En verkin þeirra Ragnhildar og Jóhanns rýma vel saman og þó að skýr höfundareinkenni sé á þeim verður blandan góð, áhugaverður dans á landamærum ljóðrænu og óhugnaðar eða hæfilegs ljótleika sem þó er meira afgerandi í verkum Jóhanns, sem setur margar bóka sinna fram undir merkjum útgáfunnar Pabba kné. Jóhann bloggar líka um myndveröld sína undir þessu heiti. Á meðan ljóðrænan kemur fram úr klippiverki Ragnhildar þá er styttra í skringilegheit í verkum Jóhanns, hann vísar á beinskeyttari hátt til samtímans; þetta er heimur þeirra “virku í athugasemdum”, heimsmynd þjóðar sem flaggar en er kannski búinn að gera upp á bak. Orðaleikir og myndmálsruglingur verður meira áberandi hluti af verkum Jóhanns á meðan samsetningar Ragnhildar og útflettingar hennar úr bókum minna frekar á fundna ljóðlist þar sem ekki er alveg víst hvað er hending eða ætlun höfundar.

Það er stutt yfir í heim poppkúltúrsins í þessari myndlist, hjá listamönnunum báðum. Á einum stað vísað í Morgan Kane eða Rauðu ástarsögurnar, á öðrum í sígild þemu myndlistarsögunnar, t.d. í heimsslitin sjálf.

Sýningin Sic er lítil og einföld við fyrst sýn en hún sýnir líka fram á gjöfullt samtal myndlistarmannanna. Sic heitið gefur manni hugmynd um að svona eigi verkin á sýningunni nákvæmlega að vera. Það er búið að gefa það upp fyrir fram að ef eitthvað virki þarna skrýtið þá sé það alveg eins og það eigi að vera. Með heitinu gefa listamennirnir okkur fullvissu um að þeir hafi fulla stjórn á verkum sínum og aðstæðum almennt. Þetta vekur aftur spurningar um það hvenær listaverk sé tilbúið og hvenær ekki. Ekkert nema ákvörðun og afstaða listamannsins segir til um hvað er hvað, hvað sé tilbúið og hvað ekki, hvað list og hvað ekki. Leikur þeirra Ragnhildar og Jóhanns að myndmáli og orðum gengur því vel upp í langflestum tilvikum á sýningunni. Þetta er sölusýning í Kunstschlager og alveg hægt að mæla með því að áhugafólk um landamæri myndmáls og texta í heimi samtímamyndlistarinnar hugi að henni.

Sjá verk Ragnhildar: https://ragnhildurjohanns.wordpress.com/

RÚV 2014

***

STOÐKERFIÐ

Fáein orð sem fylgdu úr hlaði verkinu “Stoðkerfið” sem frumsýnt var á sýningunni Nautn – Conspiracy of pleasure í Listasafni Akureyrar 2016.

Eitt

Höfuðstöðvar Pabbakné eru ekki hér, en í kolli þínum er vinnustofan og áhöldin, þekkingin og vitleysan. Þú kannast varla við þínar eigin hugmyndir sem fyrirtækið rissar upp, rammar inn og selur þér. Stoðkerfi fyrirtækisins Pabbakné er takmarkalítil væntumþykja þess í þinn garð. Svo sannarlega leiðir fyrirtækið hönd þína allan liðlangan daginn, það huggar þig í þunglyndiskasti sumarkvöldsins, skrifar handritið að æsilegum draumförum, þar sem þú ert ávalt í aðalhlutverkinu og það vekur þig inn í dag með splunkunýjum fyrirheitum um hömlulausa menningarneyslu.

Hryggjarstykki fyrirtækisins er væntumþykja þín í garð þess, sem þú sýnir best með því að gerast vildarvinur þess fyrir aðeins 0,6% ævitekna þinna. Og ekki skaðar ef fyrirtækið eignast hlutdeild í ímyndunarafli þínu og órum, þegar þú leyfir þeim óhindruðum að streyma fram í hugskotsjónir þínar, í einrúmi ef þú kýst svo.

Fyrirtækið stendur fyrir þig vaktina við mótmæli gegn ríkisstjórnum, meðferðinni á flóttafólki, þjóðernishyggju og almennum leiðindum. Það kýs þig fyrir forseta, styður með þér ríkjandi stjórnvöld og þjóðkirkjuna, en aðeins ef þú vilt það frekar. Það fylgir þér á salernið en líður langbest undir sænginni – ásamt þér.

Fyrirtækið Pabbakné er með þér í uppeldi barna þinna, frá getnaði að telja. Það smyr nesti þeirra og skrifar bæði og les fyrir þau kvöldsögurnar. Fyrirtækið fylgir þeim eins og skuggi gegnum skólakerfið og atvinnulífið og verður að auki þeirra helgidómur í frístundum. Það gætir að öldruðum foreldrum þeirra, börnum og barnabörnum og fylgir vitaskuld vinum þeirra og ættingjum til grafar. Því Pabbakné er ekki aðeins okkar fyrsta leikfang heldur einnig það síðasta.

Markús Þór Andrésson skrifar um hlut JLT í Nautninni: 

Jóhann Ludwig Torfason setur [líkt og Helgi] fram kerfi og ferli en í formi myndrænna þrauta. Hann sýnir ólíka leiki sem líkjast borðspilum eða myndagátum. Þegar betur er að gáð leynast vafasamari skilaboð að baki sem samræmast ef til vill ekki þeim siðaboðskap sem almennt er við líði. Kynferðislegir órar, fordómar og fíkn eru sett fram á sakleysislegan hátt, en í formi keppni eða árangursmiðaðs leiks. Fagurfræði verkanna sækir í myndmál eftirstríðsáranna þegar ákveðið sakleysi og gamansemi [vantar orð] alla markaðssetningu. Þannig er minnt á að þau gildi og viðmið sem ríkja í siðferðismálum eru iðulega háð tíðaranda hverju sinni. Ýmist er eitthvað bælt sem síðar þykir eðlilegt að flíka eða að dregin er neikvæð mynd upp af einhverju sem áður var látið viðgangast.

Listsköpun Jóhanns er sett fram undir samheiti ímyndaðs verkstæðis sem hann kallar Pabbakné. Það var fyrst kynnt til sögunnar árið 2005, sem einhverskonar yfirskrift eða fyrirtæki sem gaf listamanninum færi á að setja fram efni í nafni einhvers annars en eigin persónu. Þótt leyndarhyggjan sé leikur einn og öllum ljóst hver stendur á bak við verkin, þá opnar þetta hliðarsjálf möguleikann á annars konar tjáningu. Um leið endurspeglar fyrirkomulagið hversu auðvelt hið kapítalíska samfélag hefur gert einstaklingum að skjóta sér undan persónulegri ábyrgð. Í skjóli markaðskerfisins dafna nautnir, skemmst er að minnast græðgi, sem ella fengist síður útrás fyrir. Kynferðisleg nautn og líkamleg kemur við sögu í yfirveguðu og stílfærðu myndmáli Jóhanns.

Facebook Comments